Átta líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Þrjár þeirra áttu sér stað í miðborginni en hinar á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu.
Í einni þeirri skarst karlmaður á þrítugsaldri í andliti en hann lenti í átökum við mann á svipuðum aldri á skemmtistað aðfaranótt laugardags.
Þrettán ökumenn voru teknir fyrir ölvunarakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Ellefu þeirra voru stöðvaðir víðsvegar í borginni og einn í Kópavogi og Hafnarfirði. Fimm voru teknir á laugardag og átta á sunnudag. Þetta voru níu karlmenn á aldrinum 19-60 ára og fjórar konur, 18-23 ára. Einn þessara ökumanna hafði þegar verið sviptur ökuleyfi og annar hefur aldrei öðlast ökuréttindi.
Þá voru fjórir ökumenn teknir á höfuðborgarsvæðinu fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Þrír voru stöðvaðir í Reykjavík og einn í Kópavogi. Þrír voru teknir aðfaranótt laugardags og einn aðfaranótt sunnudags.
Þetta voru þrír karlmenn á aldrinum 17-27 ára og ein kona, 23 ára. Í för með yngsta ökumanninum voru tveir jafnaldrar hans en annar þeirra var með fíkniefni í fórum sínum. Þeir voru líka færðir á lögreglustöð en þaðan var hringt í foreldrana sem komu síðan og sóttu þá.
Lögreglan segir, að mikið sé um stöðubrot á höfuðborgarsvæðinu en um helgina hafði
lögreglan afskipti af rúmlega eitt hundrað ökutækjum vegna þessa,
aðallega á miðborgarsvæðinu en líka annars staðar í borginni og einnig
í Kópavogi og Hafnarfirði.
5000 kr.
sekt er vegna stöðubrots en gjaldið rennur í Bílastæðasjóð.