Það er dulið atvinnuleysi á Íslandi vegna þess að ekki hefur verið tekið á rekstri fyrirtækja eins og gera þarf, að nokkru leyti vegna þess að bankarnir halda þeim á floti. Þetta sagði Gylfi Zoega, prófessor á fundi Sjálfstæðra Evrópusinna í HR í gær þar sem fjalla var um gjaldmiðils- og peningamál.
Því hefur oft verið haldið fram að krónan hafi hjálpað okkur að komast út úr kreppunni og dregið úr atvinnuleysi. Gylfi sagðist geta tekið undir að krónan hefði hjálpað okkur á árinu 2009, en hann sagðist ekki viss um að hún hefði gert það í fyrra. Útflutningsatvinnuvegirnir hefðu vissulega notið lágs gengis krónu eftir kreppu, en hátt gengi krónu fyrir hrun hefði haft neikvæð áhrif á útflutningsgreinar og gerðu það að verkum að þessar greinar væru ekki eins öflugar nú og þær ættu að vera.
Gylfi sagði að þó að atvinnuleysi mældist minna en reikna hefði mátt með væri skýringin á því að nokkru leyti að fyrirtæki sem væru í reynd gjaldþrota væru ekki búin að ganga í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Sum þessara fyrirtækja væru í eigu bankanna, en hann sagði einnig að það hefði tekið mjög langan tíma fyrir bankana að taka á málum fyrirtækja eins og þyrfti að gera. „Við erum því ekki búin að taka á okkur höggið að öllu leyti. Vandamálið er að nokkru leyti dulið,“ sagði Gylfi.
Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, tók undir þetta á fundinum og sagði að atvinnuleysið væri falskt skráð á Íslandi. Það væri í reynd um 20% meira en kæmi fram í tölum Vinnumálastofnunar. Hann minnti líka á að fjöldi fólks hefði horfið af vinnumarkaði með því að flytja úr landi og fara í nám. Hann sagði að það þyrfti að búa til 20 þúsund ný störf á Íslandi á næstu 2-3 árum og það þyrfti að hækka kaupmátt um 13% á þessu tímabili. Þetta væri verkefni næstu ára.