Nú er komið að því að forystumenn ASÍ og Samtaka atvinnulífsins hefji viðræður um launalið nýrra kjarasamninga. Er reiknað með að þær fari í gang á morgun eða fimmtudaginn. Mikill hægagangur er hins vegar í viðræðum við stjórnvöld um aðgerðir til að greiða fyrir gerð samninga, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ.
„Við erum að bíða eftir því að einhver vinna komist í gang með stjórnvöldum,“ segir Gylfi. Þó einhver vinna sé hafin í afmörkuðum málum þá fari þetta mjög hægt af stað. Ekkert sé t.d. komið frá ríkisstjórninni um framkvæmdir, orkumál eða lífeyrismálin, svo dæmi séu nefnd um stór mál sem verkalýðshreyfingin leggur mikla áherslu á.
Gylfi segir að viðræðunum við SA um kjarasamningana miði ágætlega og væntanlega hefjist viðræður um launin á morgun eða fimmtudaginn. „Við hefðum gjarnan viljað að samhliða því fengjum við betri tilfinningu fyrir þeim atriðum sem snúa að stjórnvöldum,“ segir hann.
Forystumenn launþegasamtakanna hafa lagt mikla áherslu á aðgerðir eða áætlun af hálfu stjórnvalda vegna veikrar stöðu íslensku krónunnar, sem setji þróun kjaramála í mikla óvissu. Hafa verið fundarhöld með efnahags- og viðskiptaráðherra um í hvaða skrefum hægt verði að afnema gjaldeyrishöftin. Gylfi segir að þau mál séu nú til skoðunar á milli stjórnvalda og Seðlabankans.