Rúmlega 19% allra þingmanna í heiminum eru konur, samkvæmt árlegri rannsókn alþjóðlegra þingmannasamtaka. Hlutfall kvenna á þingi er einna hæst hér á landi eða 42,9%.
Konum á þjóðþingum fer þó hægt fjölgandi en árið 2005 voru konur 16,3% af þingmönnum í þeim 188 ríkjum, sem könnunin nær til. Í fyrra var þetta hlutfall tæplega 19% en nú rúmlega 19%.
Hlutfallslega flestar konur eru á þingi Rúanda en þar er hlutfallið 56,3%. Í Svíþjóð eru 45% þingmanna konur, 44,5% í Suður-Afríku, 43,2% í Kúbu, 42,9% á Íslandi, 40,7% í Hollandi, 40% í Finnlandi og 39,6% í Noregi.
Þessar tölur miðast við 31. janúar á þessu ári.
Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er í dag, 8. mars.