Nýjasta hækkunin á eldsneytisverði er tilkomin vegna ástandsins í Líbíu en landið er stór birgir fyrir Evrópumarkað. Þetta segir Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri hjá N1.
Allir seljendur eldsneytis hækkuðu verð hjá sér í gær og í fyrradag, fyrst stóru félögin þrjú um fimm krónur á lítrann. Í kjölfarið fylgdu svo Atlantsolía, Orkan og ÓB sem hækkuðu sitt verð um hádegi í gær.
Í gærkvöldi var þannig ódýrasta bensínið að finna hjá Orkunni, 230,60 krónur á lítrann, en það dýrasta hjá Shell, Olís og N1, 231,90 krónur í sjálfsafgreiðslu. Hjá Orkunni kostaði dísilolían 235,50 krónur á lítrann en dýrasta olían var hjá stóru félögunum þremur, 236,80 krónur.
Magnús segir erfitt að segja til um framhaldið en það byggist á því sem kunni að gerast í Líbíu. Allar fréttir sem berist þessa dagana séu neikvæðar fyrir verðþróun. Enn sem komið er hafi þó báðir aðilar séð sér hag í að halda olíuhreinsunarstöðvum gangandi. Árásir á þær væru afleitar fyrir verðið.
Verð á hráolíu lækkaði lítillega í morgun í viðskiptum í Asíu vegna vísbendinga um að önnur OPEC-ríki hafi í hyggju að auka framleiðslu til að mæta framleiðslutapinu í Líbíu. Þannig lækkaði verð á Texas olíu um 67 sent tunnan og var 104,35 dalir í morgun. Verð á Brent Norðursjávarolíu lækkaði um 76 sent og var 112,30 dalir tunnan.