„Ég gat ekki skilið þetta öðruvísi en svo að ég hefði keypt áskrift að Stöð 2 Sport á meðan heimsmeistaramótið í handbolta stóð yfir og ekki degi lengur,“ segir Sævar Hlöðversson.
Hann var ekki ýkja sáttur þegar honum barst rukkun fyrir áskrift að sportrásinni fyrir marsmánuð. „Maður gleymir oft að renna ýtarlega yfir greiðsluseðilinn en ég tók eftir því núna að ég hafði verið rukkaður um 5.120 krónur um mánaðamótin fyrir HM-áskriftina mína. Mér datt ekki í hug að ég sæti uppi með þessa áskrift þegar heimsmeistaramótinu lyki; ekki var þetta auglýst með þeim hætti.“
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Sævar ennfremur, að er hann hafi leitað svara hafi honum verið tjáð að það væri hans hlutverk að segja áskriftinni upp. „Þetta finnst mér ekki góðir viðskiptahættir, eiginlega bara svívirðilegt. Þetta var kynnt og auglýst sem sérstök HM-áskrift og auðvitað skilur maður það þá sem tímabundna áskrift.“