Samband garðyrkjubænda þáði í haust TAIEX styrki frá Evrópusambandinu til að standa straum af kostnaði við ferð garðyrkjubænda sem fóru til Finnlands til að kynna sér reynslu finnskra garðyrkjubænda af aðild að ESB.
Sveinn Sæland, formaður Sambands garðyrkjubænda, ræddi um ferðina á búnaðarþingi sem nú stendur yfir. Samband garðyrkjubænda fékk Hagfræðistofnun Háskóla Íslands til að leggja mat á hugsanleg áhrif aðildar Íslands að ESB á garðyrkjuna. Niðurstaða hennar var að áhrifin yrðu mismunandi milli greina en að ESB aðild yrði íþyngjandi fyrir greinina í heild. Í framhaldinu ákvað Samband garðyrkjubænda að nokkrir bændur færu í heimsókn til Finnlands til að geta rætt málið persónulega við starfssystkini þar. Ferðin var farin m.a. fyrir TAIEX styrk frá ESB.
Sveinn sagði að íslensku bændurnir hefðu fengið hreinskilnar og ítarlegar kynningar á stöðunni og reynslu Finna af aðildinni, bæði frá samtökum bænda í heild svo og garðyrkjubændum sérstaklega. Ferðin hefði verið félaginu gagnleg en afstaða þess hefði ekki breyttist við ferðina til aðildar Íslands að ESB.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, sagði á búnaðarþingi að enginn ágreiningur væri við Samband garðyrkjubænda um þetta mál þó að hann teldi óheppilegt að taka við styrkjum frá ESB.