Handtökur spilltu veislunni

Lisa Tchenguiz, systir Vincents og Roberts Tchenguiz, kemur út úr …
Lisa Tchenguiz, systir Vincents og Roberts Tchenguiz, kemur út úr byggingu í Mayfair í dag. Reuters

Aðgerðir efnahagsbrotadeildar bresku lögreglunnar gegn fyrrum stjórnendum Kaupþings og bræðrunum Vincents og Roberts Tchenguiz hafa sett strik í reikninginn í Cannes í Frakklandi þar sem um 18 þúsund alþjóðlegir fjárfestar hafa safnast saman til að ræða um stöðu mála á fasteignamarkaði.

Til stóð að Vincent Tchenguiz héldi til Cannes í dag til að taka þátt í ráðstefnunni. Fréttirnar af handtöku bræðranna í morgun voru hins vegar fljótar að berast og að sögn breska viðskiptablaðsins Financial Times var um fátt meira rætt á kaffihúsum og í börum í Cannes í dag. 

Níu manns voru handteknir í Lundúnum og Reykjavík í dag vegna málsins en einkum er verið að rannsaka lánveitingar Kaupþings til Roberts  Tchenguiz. Yfirheyrslur stóðu enn yfir í báðum löndunum nú undir kvöld.

Til stóð að Vincent flygi til Cannes í dag og hann ætlaði síðan að bjóða fundargestum til veislu um borð í snekkju sinni Veni, Vidi, Vici annað kvöld. 

Financial Times segir, að ekki sé ljóst hvort af veislunni verði. Hins vegar hafi það verið talið til marks um að farið væri að birta til á fasteigna- og fjármálamarkaði þegar snekkjan birtist á frönsku Rivíerunni nýlega eftir að hafa verið fjarverandi í ár.   

Lögreglumaður ber gögn út í bíl úr skrifstofu í Mayfair …
Lögreglumaður ber gögn út í bíl úr skrifstofu í Mayfair í Lundúnum í dag. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert