Kaupþingsmenn handteknir

Höfuðstöðvar Kaupþings í Reykjavík fyrir hrunið haustið 2008.
Höfuðstöðvar Kaupþings í Reykjavík fyrir hrunið haustið 2008.

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar í samvinnu við lögregluna í London hefur handtekið sjö menn í Bretlandi í tengslum við rannsókna á starfsemi Kaupþings. Tveir menn hafa ennfremur verið handteknir hér á landi vegna rannsóknarinnar.

Breska blaðið Fiancial Times segir, að bræðurnir Vincent og Robert Tchenguiz séu meðal þeirra sem voru handteknir en Robert var stærsti einstaki viðskiptavinur Kaupþings fyrir fall bankans. 

Þá munu Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Ármann Þorvaldsson, fyrrum forstjóri Singer & Frieldlander, dótturfélags Kaupþings í Lundúnum, vera á meðal þeirra, sem voru handteknir, að sögn breskra fjölmiðla. 

Í tilkynningu frá SFO segir að sjö menn hafi verið handteknir í Bretlandi og gerð hafi verið húsrannsókn í tveimur fyrirtækjum og á átta heimilum vegna rannsóknar á falli Kaupþings banka. Financial Times segir, að meðal annars hafi verið leitað í skrifstofum Rotch Property, fjárfestingarfélags Vincents Tchenguiz. Birtir blaðið myndir á bloggvefnum Alphaville af lögregu við skrifstofurnar. 

Vegna rannsóknarinnar hafi sjö menn verið handteknir og færðir á lögreglustöð til yfirheyrslu. Þeir séu á aldrinum 42-54 ára. Fram kemur að 135 lögreglumenn og starfsmenn SFO hafi tekið þátt í aðgerðunum.

Í tilkynningunni segir að sérstakur saksóknari á Íslandi hafi gert húsleit á tveimur heimilum í Reykjavík og handtekið tvo menn á aldrinum 42-43 ára.

Robert og Vincent Tchenguiz.
Robert og Vincent Tchenguiz.
Sigurður Einarsson.
Sigurður Einarsson.
Ármann Þorvaldsson.
Ármann Þorvaldsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka