Á sumrin reyna íslenskir klifrarar að nýta góða veðrið í að klifra utandyra. Á veturna þurfa þeir hins vegar yfirleitt að láta sér nægja að vera innandyra, til dæmis í Klifurhúsinu í Skútuvogi.
Þau Árni Stefán, Andri Már, Jónas Grétar, Örvar Dóri, Hróðmar og systkinin Kristján Þór og Lóa Björk deila áhugamáli á klifri. Öll eru þau í kringum tvítugt. Þau kynntust í Klifurhúsinu, en þar hafa þau iðkað sína íþrótt um nokkurra ára skeið og hittast um fimm eða sex sinnum í hverri viku.
„Staðurinn heitir El Chorro og er sjötíu kílómetra norður af Malaga á suðurströnd Spánar. Þetta er fjögur hundruð metra hár klettaveggur sem er kílómetra breiður á aðalsvæðinu. Þarna er íslenskt sumarveður um jólin, svo það er þægilegt fyrir Íslendinga að fara þangað,“ segir Jónas Grétar.
„Þetta er eiginlega eini staðurinn þar sem maður getur farið að klifra um jólin og þar sem er þægilegt að vera,“ segir Kristján Þór, en hann var að koma til El Chorro í þriðja sinn.