Þeim einstaklingum sem efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), handtóku í London í morgun verður sleppt að lokinni yfirheyrslu í dag. Leiði yfirheyrslur eða húsleitir í ljós upplýsingar um hugsanleg brot verða málaferli rekin fyrir breskum dómstólum. Þetta segir talsmaður efnahagsbrotadeildarinnar.
Rannsóknin sé á vegum SFO, sem njóti aðstoðar embættis sérstaks saksóknara á Íslandi. Handtökurnar tengjast því ekki þeim málum sem rannsökuð hafa verið hér á landi beinum hætti.
Mikið hefur fjallað um aðgerðir SFO í breskum fjölmiðlum í dag, en þar er því víða slegið upp að bræðurnir Vincent og Robert Tchenguiz séu á meðal þeirra sem nú er verið að yfirheyra. Talsmaður SFO vildi hvorki staðfesta þetta né neita því.
Einnig hefur komið fram að Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander hafi verið handteknir. DV segir að Guðni Níels Aðalsteinsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárstýringar Kaupþings og núverandi starfsmaður breska fjármálaeftirlitsins, sé meðal þeirra, sem færðir voru til yfirheyrslu í Bretlandi. Bylgjan sagði, að Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi, hafi verið handtekinn í Reykjavík.
Alls voru sjö handteknir í Lundúnum og tveir á Íslandi.
Venjan er, í málum sem þessum, að þeim sem handteknir eru sé sleppt að lokinni yfirheyrslu og að engin kæra sé gefin út. Að sögn talsmanns SFO getur tekið langan tíma að vinna úr þeim gögnum sem aflað hefur verið í dag, bæði í húsleitum og yfirheyrslum, og því gæti langur tími liðið þar til yfirvöld hafa afskipti af hinum handteknu á ný.