Einn þeirra sem handtekinn var í morgun, í tengslum við rannsókn Efnhagsdeildar bresku lögreglunnar í samstarfi við embætti sérstaks saksóknara, er Guðmundur Þór Gunnarsson fyrrverandi viðskiptastjóri á útlánasviði Kaupþings, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins.
Guðmundur Þór var viðskiptastjóri bankans gagnvart Tchenguiz-bræðrunum, en þeir voru báðir handteknir í London í morgun. Hann var einn launahæstu starfsmanna bankans á árunum fyrir hrun, en samkvæmt skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafði hann rúmar 8 milljónir í mánaðarlaun árið 2007, að meðaltali.
Greint hefur verið frá því að Bjarki Diego, sem var framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi, hafi einnig verið handtekinn og yfirheyrður í dag. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, hefur ekki staðfest þessi nöfn við fjölmiðla í dag.