Þingmenn Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd Alþingis hafa óskað eftir því að Ríkisendurskoðun geri úttekt á því hvers vegna tekjur af nýjum og hærri sköttum hafi ekki skilað sér í ríkissjóð.
Í bréfi, sem þeir Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur Blöndal hafa sent Helga Hjörvar, formanni efnahags- og skattanefndar, segir að við afgreiðslu fjárlaga 2010 hafi skatttekjur ríkissjóðs á árinu verið taldar myndu nema 414 milljörðum krón, 56 milljörðum meira en áætlaðar skatttekjur 2009.
Þegar fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2011 var gefið út í haust hafi skatttekjur ríkissjóðs árið 2010 taldar verið taldar nema 421 milljarði króna.
Samkvæmt mánaðaruppgjöri A-hluta ríkissjóðs fyrir síðasta ár séu skatttekjur ríkissjóðs árið 2010 hins vegar taldar hafa numið 403,3 milljörðum króna.
„Nú er ljóst að umfangsmiklar skattkerfisbreytingar og skatthækkanir hafa átt sér stað undanfarin 2 ár. Af þessum tölum að dæma hafa þessar breytingar ekki skilað sér í aukum tekjum fyrir ríkissjóð eins og áætlað var og munar þar gríðarlegum fjárhæðum, tæpum 38 milljörðum. Því fara fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í efnahags- og skattanefnd fram á að nefndin leiti til Ríkisendurskoðunar og biðji um úttekt á af hverju tekjur af hverri skattbreytingu fyrir sig hafi ekki skilað sér í ríkissjóð," segir í bréfi þingmannanna.