Vont veður leiðir til víðtæks rafmagnsleysis um stóran hluta landsins og ekki bætir úr skák þegar í ljós kemur að reynt hefur verið að vinna skemmdir á dreifikerfinu. Þetta er meðal verkefna í viðamikilli almannavarnaæfingu sem Landsnet stendur fyrir í dag.
Vegna rafmagnsleysisins hefur neyðarstjórn Landsnets og neyðarstjórn raforkukerfisins verið virkjuð. Orkuveita Reykjavíkur, RARIK, Alcoa og Alcan taka þátt í æfingunni. „Þetta er mjög umfangsmikil æfing. Við erum að æfa viðbrögð við svona vá. Við gerum þetta með reglubundnum hætti,“ sagði Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets.
Með æfingunni er reynt að æfa sem flesta þætti. Byggt er á því að þó takist að leysa eitt vandamál þá komi önnur vandamál upp á í kjölfarið. Þegar mbl.is ræddi við Guðmund var víðtækt rafmagnsleysi á SV-horni landsins og á Austurlandi. „Við æfum allt sem viðkemur neyðarstjórn. Neyðarstjórn er aldrei kölluð saman nema að það sé einhver mikil vá fyrir dyrum og stórvægilegir atburðir sem gerast. Síðast kom neyðarstjórnin saman þegar gaus í Eyjafjallajökli,“ sagði Guðmundur.