Ekkill og börn fá skaðabætur

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut.

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að íslenska ríkið skuli greiða karlmanni 1,4 milljónir króna í skaðabætur en eiginkona hans lést úr heilablæðingu á Landspítalanum árið 2001.

Ríkinu var jafnframt gert að greiða tveimur börnum hjónanna skaðabætur, 800 þúsund krónur hvoru um sig. Ríkið hafði áður fallist á að greiða fjölskyldunni bætur þar sem talið var að dauða konunnar mætti rekja til stórfellds gáleysis starfsmanna Landspítala í tengslum við undirbúning á ísetningu fósturvísis og meðferð á meðgöngueitrun. Fjölskyldan krafðist hins vegar hærri bóta en ríkið vildi greiða.

Hjónin, sem höfðu verið saman í um þrjátíu ár, höfðu lengi glímt við ófrjósemi áður en þau leituðu til tæknifrjóvgunardeildar Landspítala. Ljóst var að eina leið þeirra til að eignast barn var með notkun og uppsetningu gjafaeggs.

Fósturvísir var settur upp hjá konunni í apríl 2001, en þá var hún tæplega 47 ára gömul. Fyrir uppsetningu fósturvísis voru þeim ekki gefnar upplýsingar um áhættu sem væri samhliða aðgerðinni og þeim var ekki gert að undirrita samþykkiseyðublað fyrir aðgerðinni. 

Fósturvísirinn varð að fóstri og kom konan til meðgöngueftirlits í júlí 2001. Í byrjun október fór blóðgildi hennar lækkandi og var það túlkað sem eðlileg blóðþynning á miðþriðjungi meðgöngunnar. Þegar konan var gengin 26 vikur og 5 daga greindist hún með meðgöngueitrun og var samstundis flutt á meðgöngudeild Kvennadeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss og næstu daga á eftir var konan undir eftirliti.

Í október 2001 kvartaði konan undan óþægindum frá magaopi og í framhaldinu fór blóðþrýstingur hennar mjög hækkandi. Kvartanir konunnar voru greindar sem meltingaróþægindi og henni voru ítrekað gefin lyf við þeim. Hún fékk í kjölfarið heilablæðingu og missti hún fljótlega meðvitund.

Gerður var bráðakeisaraskurður á konunni og var stúlkubarninu, sem hún gekk með, bjargað. Sneiðmyndir af höfði konunnar sýndu miklar heilablæðingar og var það mat heilaskurðlæknis að ekki væri unnt að gera skurðaðgerð á henni, vegna þess hversu alvarleg blæðingin væri. Hún lést sama dag, 20. október 2001.

Ríkið greiddi manninum og börnum hans 1,2 milljónir króna hverju í bætur árið 2009 auk vaxta og útfararkostnaðar. Þau kröfðust hins vegar hærri bóta og hafa dómstólar nú fallist á þá kröfu.

Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að dóttir hjónanna, sem nú er 9 ára, býr við mikla fötlun, m.a. af völdum heilablæðinga sem hún varð fyrir í fæðingunni og rekja má til fyrirburafæðingar. 22 ára sonur hjónanna, sem þau ættleiddu árið 1999, er einnig fatlaður en stundar háskólanám.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert