Hálka víðast hvar um landið

Hreindýr.
Hreindýr. Friðrik Tryggvason

Hálka og snjór er á vegum um nánast allt land. Þá varar Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vegfarendur á Austurlandi við mikilli umferð hreindýra.

Sérstaklega er varað við þremur svæðum á vefsíður Náttúrustofu þar sem hættuástand hefur verið viðvarandi vegna dýranna, á Hárekssstaðaleið, á Fagradal og í Lóni. Mikilvægt er að vegfarendur geri sér grein fyrir að hreindýrin geta þvælst víðar um vegi Austurlands. Er ástandið sagt verst þegar hálka er á vegum í myrkasta skammdeginu.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að hálka og skafrenningur eru á Hellisheiði, í Þrengslum og á Sandskeiði og vetrarfærð um allt Suðurland og snjóþekja eða hálka á vegum.

Á Vesturlandi er hálka eða hálkublettir á flestum vegum.

Á Vestfjörðum er  hálka á flestum leiðum en snjóþekja á Barðaströnd og Reykhólasveit. Þæfingur er á Hálfdán og á Mikladal. Þungfært og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum.

Á Norður- og Norðausturlandi er hálka mjög víða, snjóþekja, éljagangur og sumstaðar skafrenningur. Þæfingsfærð og éljagangur er á Mývatnöræfum en þungfært og skafrenningur á Hólasandi.

Á Austurlandi er sumstaðar komin snjóþekja eða hálkublettir,  þó eru vegir víðast auðir með ströndinni.

Á Suðausturlandi er hálka í Öræfum og vestur úr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert