Jóhanna biður um launalækkun

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hefur óskað eftir því að laun hennar, sem hún þiggur sem handhafi forsetavalds í fjarveru forseta Íslands, verði lækkuð til samræmis við 15% launalækkun sem forseti Íslands tók á sig í ágúst 2009.

Þegar forseti Íslands fer af landi brott fá handhafar forsetavalds greidd laun í fjarveru hans, en handhafar forsetavalds eru forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar.

Fréttablaðið upplýsti í vikunni, að þessir þrír fengju 15% hærri laun en Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands. Skýringin á þessu er að Ólafur Ragnar óskaði sjálfur eftir því við Fjársýslu ríkisins að laun hans yrðu lækkuð um 15%. Kjararáð lækkaði á sínum tíma laun æðstu embættismanna þjóðarinnar, en taldi sig ekki geta lækkað laun forsetans vegna ákvæða í stjórnarskrá. Í framhaldinu óskaði forsetinn eftir að laun hans yrðu lækkuð.

Þessi lækkun náði hins vegar ekki til launa handhafa forsetavalds. Í bréfi sem forsetaritari sendi ráðuneytisstjóranum í forsætisráðuneytinu 8. febrúar sl. er vakin athygli á því að laun handhafa forsetavalds hafi ekki enn lækkað, en launin eru greidd af fjárveitingum forsetaembættisins. Í bréfinu er vakin athygli á því að laun allra starfsmanna forsetaembættisins hafi verið lækkuð. Þá er bent á að samkvæmt 8. gr. stjórnarskrárinnar skuli handhafar forsetavalds njóta sömu launa og forseti Íslands.

Forsetaembættið vakti tvívegis athygli Fjársýslu ríkisins á þessu máli, m.a. tölvupósti 29. janúar 2010. Fjársýslan taldi að þessi ákvörðun forseta Íslands að óska persónulega eftir launalækkun hefði einungis áhrif á hans laun en ekki laun handhafa.

Hrannar Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir í tölvupósti til Örnólfs Thorssonar, forsetaritara, að forsætisráðherra hafi ekki vitað um að forsetinn hefði látið lækka laun sín um 15%. Forsætisráðuneytið hefði ekki vitað um samskipti forsetaembættisins við Fjársýsluna.

Þessu mótmælir forsetaritari í svarpósti. „Forseti er ekki „nýbúinn að upplýsa forsætisráðherra“ um þetta mál enda slíkt óþarfi þar eð málið hefur legið fyrir opinberlega í rúm tvö ár.“

Hrannar ítrekar síðan í tölvupósti að forsætisráðuneytið hefði fyrst fengið upplýsingar um þetta 8. febrúar. „Undirritaður getur jafnframt upplýst að í framhaldi af því að forsetaritari upplýsti forsætisráðuneytið um þann mismun sem orðinn var á launum forseta Íslands og launum handhafa forsetavalds ákvað forsætisráðherra fyrir sitt leyti að óska eftir því að laun hans sem handhafa forsetavalds yrðu framvegis miðuð við raunverulegar launagreiðslur til forseta Íslands en ekki úrskurð kjararáðs eins og verið hefur. Með þessu tekur forsætisráðherra þó ekki afstöðu til þess réttarágreinings sem upp er kominn milli embættis forseta Íslands annars vegar og Fjársýslu ríkisins og fjármálaráðuneytisins hins vegar,“ segir í bréfi aðstoðarmanns forsætisráðherra.

Þess má geta að á þingi árið 2009 lagði efnahags- og skattanefnd Alþingis fram frumvarp þess efnis að laun handhafa forsetavalds „skulu samanlagt njóta sem svarar til fimmtungs launa forseta þann tíma sem þeir hverju sinni fara með forsetavald um stundarsakir.“ Frumvarpið var ekki afgreitt á þinginu.

Hins vegar sagði Vigdís Hauksdóttir alþingismaður Framsóknarflokks í umræðum um málið 17. ágúst 2009: „Sem leiðir líka hugann að því að eftir hrunið í haust fór hæstv. forseti sjálfur fram á að laun hans yrðu lækkuð til þess að hann gæti á einhvern hátt hjálpað til í þessu hruni.  ... Laun forseta Íslands voru lækkuð í kjölfarið þvert á það sem kjararáð á að gera því að kjararáð á fyrst og fremst að ákvarða launakjör æðstu embættismanna þjóðarinnar.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka