Skiptu markaðnum á milli sín

Forstjórar stóru greiðslukortafyrirtækjanna á Íslandi skiptu markaðnum markvisst á milli …
Forstjórar stóru greiðslukortafyrirtækjanna á Íslandi skiptu markaðnum markvisst á milli sín. Reuters

Forstjórar stóru greiðslukortafyrirtækjanna á Íslandi skiptu markaðnum markvisst á milli sín og beittu ýmsum  bolabrögðum til að hindra fyrirtækið Kortaþjónustuna í að ná fótfestu á markaði.

Þetta sýna gögn sem hafa verið gerð opinber og fjallað var um í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Þar var meðal annars fjallað um tölvupósta, sem gengu á milli forstjóra kortafyrirtækjanna, sem þá hétu VISA og Eurocard. Tölvupóstarnir voru yfirleitt ýmist merktir „Eyðið“ eða „Eyðið samdægurs“.

Þeir Ragnar Önundarson, sem þá var forstjóri Eurocard og Halldór Guðbjarnarson, fyrrum forstjóri VISA viðruðu þar hugmyndir um að þrýsta á viðskiptavini Kortaþjónustunnar um að hætta viðskiptum við fyrirtækið og hvernig ná ætti stærsta viðskiptavini þess af þeim.

Í þessu sambandi var leitað ráðgjafar hjá móðurfyrirtæki VISA á Íslandi, VISA International.

Í Kastljósi er greint frá því þegar ólöglega verðsamráð fyrirtækjanna hófst.  Þá sendi Halldór Guðbjarnarson Landsbanka Íslands bréf, þar sem hann undrast samkeppni á milli Eurocard og VISA og hvetur til þess að fyrirtækin taki sig saman um viðmiðunarmarkmið.

Slíku samkomulagi var náð og það handsalað, að sögn umsjónarmanns Kastljóss.

Í tölvupóstunum kemur fram að félögin tilkynna hvoru öðru um það sem þau kalla fyrirhugaða samkeppni

Árið 2008 komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að um ólöglegt samráð kortafyrirtækjanna tveggja hafi verið að ræða og fyrirtækin gerðu engar athugasemdir við þá niðurstöðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert