Steingrímur álitinn ákveðinn og Jón Gnarr heiðarlegur

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is

Steingrímur J. Sigfússon er álitinn sterkur og ákveðinn stjórnmálamaður.     Birgitta Jónsdóttir er almennt talin sú sem stendur við eigin sannfæringu og Jón Gnarr er talinn heiðarlegur og í tengslum við almenning. Þetta má lesa út úr könnun sem MMR gerði á afstöðu til persónueiginleika stjórnmálamanna.

Könnunin var gerð dagana 8.-11. febrúar og var heildarfjöldi svarenda 865 einstaklingar.

Í könnuninni voru svarendur beðnir um að meta hvort nokkur persónueinkenni ættu við stjórnmálaleiðtogana eða ekki. Ef skoðuð eru svör þeirra sem tóku afstöðu má sjá að nokkur munur er á hvaða eiginleikum leiðtogarnir þykja gæddir. Þannig voru 35,7% þeirra sem tóku afstöðu sem töldu Birgittu Jónsdóttur, fyrrverandi þinghópsformann Hreyfingarinnar, hafa þann eiginleika að standa við eigin sannfæringu og 22,9% töldu hana í tengslum í almenning. Hins vegar voru eingöngu 1,1% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðu að Birgitta væri fæddur leiðtogi.


Þá voru 36,6% þeirra sem tóku afstöðu sem sögðu Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, vera ákveðinn, 29,2% töldu hann sterkan einstakling, 25,8% sögðu hann vinna vel undir álagi. Töluvert færri eða 9,5% þeirra sem tóku afstöðu töldu hins vegar að Steingrímur væri í tengslum við almenning.


Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er helst talin vera ákveðin (26,9%) og standa við eigin sannfæringu (26,6%). Aftur á móti voru einungis 5,4% sem töldu hana vera í tengslum við almenning og 1,8% töldu hana gædda persónutöfrum.


Tæpur þriðjungur þeirra sem tóku afstöðu sögðu Jón Gnarr, borgarstjóra, gæddan persónutöfrum (29,5%) eða heiðarlegan (28,8%) og um fjórðungur sagði hann í tengslum við almenning (23,7%). Á móti voru um og yfir fimm prósent þeirra sem tóku afstöðu sem töldu Jón sterkan einstakling (5,6%) eða ákveðinn (5,0%) og 3,5% þeirra sem tóku afstöðu töldu að Jón ynni vel undir álagi.


Tæpur fimmtungur þeirra sem tóku afstöðu sögðu Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, gæddan persónutöfrum (19,4%) og 17,1% sögðu Bjarna vera sterkan einstakling en einungis 7,0% töldu Bjarna í tengslum við almenning.


Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, voru þeir stjórnmálamenn sem flestir, eða tæp 52% þeirra sem tóku afstöðu, sögðu að byggju ekki yfir neinum af þeim eiginleikum sem spurt var um.

Niðurstöður könnunar MMR

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert