Una Margrét Jónsdóttir, höfundur ritanna, Allir í leik Söngvaleikir barna, I-II hlaut í dag viðurkenningu Hagþenkis 2010 fyrir framúrskarandi rit.
Í greinargerð viðurkenningarráðs Hagþenkis segir um rit Unu Margrétar: „Menningarsögulegt stórvirki um söngvaleiki barna á 20. öld í tali, tónum og látbragði með samanburði við eldri hefðir á Íslandi og leiki í nágrannalöndum.
Í verki sínu fjallar Una Margrét um íslenska leikjasöngva fyrr og nú, þá leiki barna sem söngvar fylgdu. Verk Unu Margrétar er árangur ellefu ára rannsókna, vettvangsrannsókna, ýmissa kannana, hljóðritana auk viðtala við mikinn fjölda manna, ungra sem aldinna, auk þess sem hún hefur sótt mikinn fróðleik í ritaðar heimildir. Una Margrét fékk einnig tækifæri til að fara í rannsóknarferðir til Færeyja, Grænlands og Bandaríkjanna til að renna enn sterkari stoðum undir rannsóknir sínar.
Verk Unu Margrétar er ekki einungis mikið eljuverk; verk hennar skiptir verulegu máli fyrir okkur og þá sem á eftir okkur koma.“
Það er Bókaútgáfan Æskan sem gaf ritið út. Formaður Hagþenkis, Jón Yngi Jóhannsson afhenti Unu Margréti Jónsdóttur viðurkenninguna við hátíðlega athöfn í ráðstefnusal Þjóðarbókhlöðunnar. Viðurkenningin felst í árituðu viðurkenningarskjali og einni milljón króna.
Viðurkenningarráð Hagþenkis 2010 er skipað fimm félagsmönnum Hagþenkis af ólíkum fræðasviðum. Það hefur verið að störfum síðan um miðjan október. Í lok janúar voru tilnefnd 10 framúrskarandi rit og höfundar þeirra og nú er orðið ljóst hvern ráðið valdi sem viðurkenningarhafa.
Í viðurkenningarráði 2010 eru: Þórður Helgason bókmenntafræðingur, formaður, Geir Svansson bókmenntafræðingur og þýðandi, Hrefna Róbertsdóttir sagnfræðingur, Kristín Unnsteinsdóttir uppeldis- og kennslufræðingur og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur og ljósmyndari. Verkefnastýra ráðsins er Friðbjörg Ingimarsdóttir framkvæmdastýra Hagþenkis.