Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir á vef samtakanna að kalla megi árið 2010 ár glataðra tækifæra. Nú sé að verða liðinn fyrsti ársfjórðungur ársins 2011 og engar breytingar til batnaðar fyrirsjáanlegar.
„Með sama áframhaldi má sjá fram á nauðsyn frekari samdráttar ríkisútgjalda. Ekki verður unnt að grípa til frekari skattahækkana sem einungis munu auka samdráttinn í hagkerfinu og gera stöðu fyrirtækja og almennings enn erfiðari en þegar er orðið," segir Vilhjálmur.
Hann segir það á valdi stjórnvalda að ákveða að ráðast í virkjanaframkvæmdir í neðri hluta Þjórsár og þau hafi einnig í hendi sér að tryggja að unnt verði að ráðast í stækkun Reykjanesvirkjunar.
„Með þessu er unnt að ryðja burt mikilvægum hindrunum í vegi þess að bygging álvers í Helguvík fari á fullt. Ríkisstjórnin hefur einnig í hendi sér að ákveða hvernig farið verður með nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslu. Á að leita samninga við þá sem leitað hafa eftir slíkum samningum eða á að leita eftir aðilum sem ekki hafa sýnt áhuga á að hefja þar starfsemi?" segir Vilhjálmur.