Halldór Elís Ólafsson vinnur fyrir umboðsaðila Icelandair sem hefur skrifstofu í kjallara sömu byggingar og íslenska sendiráðið er í. Hann hefur verið í því í dag eftir að skjálftinn reið yfir að aðstoða við að hafa uppi á Íslendingum í Japan.
„Svo vill til að ég er fyrrverandi formaður Íslendingafélagsins og er því með aðgang að listum á Facebook og svona til þess að fá fólk til að melda sig. Við erum hægt og rólega að fá fleiri og fleiri,“ segir hann.
Ástandið í borginni segir hann ekki gott. Almenningssamgöngur liggi allar niðri og fólk sé fast í borginni. Flestir sem þar starfa búa í rúmlega klukkustundar fjarlægð með lest og margir jafnvel fjær. Rútufyrirtæki séu þó að bíða eftir leyfi frá stjórnvöldum til að hefja akstur.
Halldór Elís segir að það taki hann sjálfan venjulega um 40 mínútur að komast heim til sín. Ef hann ætlaði að ganga þangað tæki það 3-4 tíma. „Ég vona bara að ég komist heim til mín með strætó eða lest í kvöld,“ segir hann.
Búðir eru þó opnar í borginni þannig að fólk sem er fast svelti ekkert á götum úti. Símar liggja hins vegar ennþá niðri að miklu leyti þannig að fólk á erfitt með að láta vita af sér. Sérstaklega telur Halldór Elís að eldra fólk komi verst út úr hamförunum þar sem það eigi erfiðara með að láta vita af sér í gegnum Netið eða með öðrum slíkum leiðum en yngra fólk.
Föðmuðust í dyrunum
Hann segir eftirskjálfta vera orðna frekar væga og síðasti stóri skjálftinn hafi riðið yfir fyrir um klukkustund. „Það kemur smá titringur af og til,“ segir hann.
„Skemmdir á byggingum og rafmagnsstaurum er ekki mikið sjáanlegt. Það bognaði samt toppurinn á Tókýó-turni sem er eftirlíking af Eiffelturninum og er útsendingamastur. Hann stendur boginn eftir. Það eru engar virkilega sýnilegar skemmdir hér í næsta nágrenninu.“
Þegar skjálftinn reið yfir sat Halldór Elís á fundi í sendiráðinu. „Ég sat þar með sendiráðsritaranum og þá byrjaði bara allt að skjálfa. Það leið svona mínúta frá svona vægum upptökum þangað til allt var farið á alveg svakalega ferð. Þá stóðum við bara og föðmuðumst í dyrunum. Það skalf mjög hressilega og þetta er lengsti skjálfti sem ég hef nokkru sinni fundið,“ segir Halldór Elís sem hefur búið í Japan í tæp fjögur ár.