Jarðskjálftinn í Japan kom greinilega fram á jarðskjálftamælum Veðurstofu Íslands út allt land. Gunnar B. Guðmundsson, jarðskjálftafræðingur á Veðurstofu, segir að skjálftar sem eru stærri en 7 mælist um allan heim, en stóri skjálftinn í morgun var af stærðinni 8,9.
Gunnar sagði að skjálftinn hefði átt upptök í sjó úti fyrir norðausturströnd Honshu eyjar um 130 km austur af borginni Sendai í Japan. „Svona stórir jarðskjálftar mælast á mælum um allan heim.“
Það hefur stundum verið talað um að stórir jarðskjálftar geti komið af stað skjálftum annars staðar í heiminum. Gunnar sagði að aukin skjálftavirkni hefði ekki komið fram hér á landi. „En skjálftar af þessari stærð hrista upp í allri jörðinni.“
Stefán Lárus Stefánsson, sendiherra Íslands í Japan, sagði í samtali við mbl.is í morgun að mjög öflugir eftirskjálftar hefðu fylgt stóra skjálftanum. Gunnar sagði að stærstu eftirskjálftarnir hefðu verið um og yfir 7 af stærð og margir væru á bilinu 6-6,5. Hann sagði að a.m.k. þrír eftirskjálftar hefðu komið fram á mælum Veðurstofunnar hér á landi. Gunnar sagði að hafa þyrfti í huga að það gæti verið svæði sem væri nokkur hundruð kílómetrar á lengd sem væri að brotna. Skjálftarnir ættu sér því upptök á talsvert stóru svæði.
Gunnar sagði að fyrir tveimur sólarhringum hefði orðið jarðskjálfti í Japan af stærðinni 7. Hann sagði ljóst að þetta hefði verið forskjálfti.
Gunnar sagði að það væru öflugar byggingar í Japan en hættan stafaði ekki síst af flóðbylgjunum. „Miðað við þær myndir sem hafa verið sýndar af þessum flóðbylgjum þó getur maður ekki ímyndað sér annað en að manntjón hljóti að vera töluvert,“ sagði Stefán.