Ragnar Önundarson hefur ákveðið að draga í hlé frá störfum í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og hyggst láta að fullu af störfum í stjórninni í nánara samkomulagi við stjórn VR.
Mun varamaður Ragnars sitja stjórnarfund lífeyrissjóðsins í dag.
Fram kemur í tilkynningu frá VR, að Kristinn Örn Jóhannesson, formaður félagsins, hafði samband við Ragnar í kjölfar Kastljóssþáttar í Sjónvarpinu í gærkvöldi þar sem fjallað var um samráð greiðslukortafyrirtækja á meðan Ragnar var forstjóri Eurocard.
Fyrir hádegið í dag afhenti Ragnar formanni VR bréf þar sem hann skýrir frá að hann hafi dregið sig í hlé frá störfum í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Hann hefur óskað eftir að varamaður verði boðaður á stjórnarfund sem verður haldinn í hádeginu í dag. Ragnar skýrir í bréfi sínu jafnframt frá því að hann hafi í hyggju að láta að fullu af störfum í stjórninni í nánara samkomulagi við stjórn VR.
Í bréfinu segir Ragnar einnig, að ásakanir um ólöglegt samráð kortafyrirtækjanna eigi sér ekki stað í raunveruleikanum. Honum hafi á sínum tíma verið synjað um andmælarétt og skýrslugjöf til Samkeppniseftirlitsins meðan á meðferð málsins stóð á þeim forsendum að hann væri ekki málsaðili.
„Ég tel að á mér hafi verið brotinn réttur með aðferð Samkeppniseftirlitsins og mun gera grein fyrir því opinberlega," segir Ragnar.