Fólk er grátandi og skelfingu lostið

Hræðsla greip um sig eftir jarðskjálftann í Tokyo.
Hræðsla greip um sig eftir jarðskjálftann í Tokyo. Reuters

„Fólk er hér grátandi og skelfingu lostið. Þetta er ólýsanlegt,“ segir Bolli Thoroddsen, verkfræðingur í Tokyo i Japan, um ástandið í borginni. Hann segir að stöðugir eftirskjálftar hafi fylgt stóra skjálftanum.

„Ég var staddur á þriðju hæð í skrifstofuhúsnæði í miðborg Tokyo þegar skjálftinn reið yfir. Ég er að vinna með nokkrum mönnum og við fundum í fyrstu fyrir smá skjálfta og okkur fannst þetta ekki vera neitt, en síðan jókst þetta meir og meir. Borðið fór fyrst að hristast. Síðan fóru hillurnar að hristast og bækur fóru að falla úr hillum. Síðan kom rosalegt högg og vasar og aðrir brothættir hlutir að falla og brotna.

Ég er umkringdur háhýsum og þegar ég leit út um gluggann þá sá ég fólk streyma út. Við töldum öruggara að vera inni því að þetta er svo þéttbýl borg að ég vildi ekki lenda undir neinu ef byggingar tækju að falla.

Ég vinn með mönnum sem eru á sextugs- og sjötugsaldri og þeir hafa aldrei upplifað jafnharðan skjálfta þrátt fyrir að þetta sé mikið jarðskjálftaland,“ sagði Bolli.

Bolli sagði að allar samgöngur lægju niðri í borginni. Lestarkerfið væri lamað og vegir væru víða lokaðir. Hann sagði að sjúkrabílar væru á þönum út um alla borg. Eldur hefði komið upp í borginni á nokkrum stöðum vegna skjálftans og flóðbylgjur gengið á land.

Bolli var skiptinemi í Japan árið 1998 og bjó þá á svæði sem er einna næst upptökum skjálftans. „Ég er búinn að vera að reyna að ná sambandi við fólk þar, en næ ekki í gegn. Ég hef auðvitað áhyggjur af því fólki.“

Mjög harður jarðskjálfti varð í Kobe í Japan fyrir nokkrum árum. Bolli sagði að eftir þann skjálfta hefði komið fram talsverð gagnrýni á viðbrögð stjórnvalda og almannavarna við skjálftanum. „Japönsk stjórnvöld hafa brugðist við þessari gagnrýni og reynt að undirbúa sig undir svipaðan skjálfta. Hús í Japan eru þokkalega vel byggð og hér er mikill viðbúnaður. Við strendur Japans eru stórir varnargarðar sem er ætlað að taka við flóðbylgjum vegna jarðskjálfta. Þeim er ætlað að fyrirbyggja slæmar afleiðingar jarðskjálfta. Þeir ættu því að vera nokkuð vel undirbúnir undir þessar miklu náttúruhamfarir,“ sagði Bolli.

Bolli Thoroddsen
Bolli Thoroddsen mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert