„Meginmunurinn á stöðu Íslands og Írlands, hvað varðar kostnað af bankakrísum, liggur að sjálfsögðu í því að Ísland ákvað að ábyrgjast aðeins innstæður, þegar bankahrun varð á Íslandi, en Írland ábyrgðist allar skuldir írskra banka,“ segir Martin Wolf, hinn þekkti dálkahöfundur Financial Times í London.
Í fréttaskýringu í Sunnudagsmogga í dag, Er ljós í myrkrinu?, kemur fram að Martin Wolf telur að íslensk stjórnvöld hafi gert rétt, í október 2008, þegar neyðarlögin voru sett og þar með ákveðið að ríkið myndi ekki ábyrgjast skuldir íslensku bankanna og fyrirtækja við erlenda lánardrottna.
„Þótt ég segi það er ég alls ekki að halda því fram að eigendur og stjórnendur íslensku viðskiptabankanna á árunum fyrir hrun hafi hagað sér sem skyldi og þeir hefðu í raun aldrei átt að komast upp með margt af því sem þeir gerðu,“ segir Wolf.
Wolf og fleiri sérfræðingar, sem rætt var við, telja að efnahagsleg endurreisn muni reynast Írum erfiðari en Íslendingum, vegna þess að Írar eru bundnir af evrusamstarfinu og geta því ekki gengisfellt eigin gjaldmiðil, eins og Íslendingar hafa gert. „Írar eru á kafi í gífurlegu skuldafeni, vegna þess að þeir ábyrgðust allar skuldir írsku bankanna sem ég tel persónulega að þeir hefðu ekki átt að gera. Þeir verða því lengur að vinna sig út úr vandanum en Íslendingar.“