Fundi borgaryfirvalda og foreldra í Breiðholti er nú lokið. Þar var rætt um hagræðingaraðgerðir í grunn- og leikskólum borgarinnar. Fundurinn var haldinn í Breiðholtsskóla og var þar fjölmennt.
Ævar Karlsson, formaður foreldrafélags Breiðholtsskóla, segir að fundurinn hafi verið nokkuð málefnalegur. Fram hafi komið hörð gagnrýni frá foreldrum barna í Breiðholti eins og búist hefði verið við.
„Það á að vera mikil hagræðing hér í Breiðholtinu miðað við önnur hverfi. Þetta er ansi mikill baggi og fólk er hrætt um að þetta eigi eftir að bitna illa á börnunum í hverfinu,“ sagði Ævar í samtali við mbl.is.
Hann sagði að mikil andstaða væri meðal foreldra í Breiðholti við sameiningu Fellaskóla og Hólabrekkuskóla. „Það er mikið af börnum af erlendum uppruna í Fellaskóla. Þau hafa fengið mjög góðan stuðning þar og fólk er hrætt um að á því verði breyting, verði af sameiningunni.“
Hann segir foreldra almennt ekki sjá neinn faglegan ávinning af því að segja upp reynslumiklu fólki af leikskólunum. Það sé flókið mál að sameina leikskóla sem hafa starfað eftir ólíkum stefnum í árafjöld.
Að sögn Ævars eru foreldrar í Breiðholti ósáttir við að verið sé að verja stórfé í að gera upp brunarústir í miðbænum á sama tíma og þessar sparnaðaraðgerðir í skólum borgarinnar standa fyrir dyrum.