Tchenguiz-bræður reiðir

Lögreglumaður ber skjöl út úr skrifstofu Vincents Tchenguiz í vikunni.
Lögreglumaður ber skjöl út úr skrifstofu Vincents Tchenguiz í vikunni. Reuters

Bræðurn­ir Robert og Vincent Tchenguiz eru sagðir afar ósátt­ir við aðgerðirn­ar, sem breska fjár­svika­lög­regl­an SFO greip til í vik­unni þegar níu manns voru hand­tekn­ir í Lund­ún­um og á Íslandi vegna rann­sókn­ar á starf­semi Kaupþings í Bretlandi.

Breska blaðið Fin­ancial Times hef­ur eft­ir ónafn­greind­um heim­ild­ar­mönn­um, sem tengj­ast bræðrun­um, að þeir telji að aðgerðirn­ar hafi verið ónauðsyn­leg­ar og ætlað að vekja sem mesta at­hygli. 

Er Robert Tchenguiz sagður vera reiður yfir þeim hnekki, sem orðstír hans hef­ur beðið og hann telji að SFO hafi ákveðið að grípa til aðgerða á þess­um tíma vegna þess að Vincent bróðir hans ætlaði að halda mikla veislu í Cann­es í vik­unni. 

Breska blaðið Guar­di­an seg­ir í dag, að fjár­svika­lög­regl­an sé að rann­saka hvort Robert Tchenguiz hafi beitt sér fyr­ir því inn­an Kaupþings, að bank­inn lánaði fyr­ir­tækj­um hans stór­fé mánuðina áður en Kaupþing féll.

Þá bein­ist rann­sókn­in að því að leiða í ljós hvort mis­farið hafi verið með eign­ir, sem sett­ar voru sem veð fyr­ir lán­un­um og hvort fyr­ir­tæki í eigu Tchenguiz hafi verið rekstr­ar­hæf á þess­um tíma.  

Blaðið hef­ur eft­ir heim­ild­ar­mönn­um, sem tengj­ast Tchenguiz, að þetta komi mjög á óvart þar sem Tchenguiz hafi ít­rekað haldið því fram að hann hafi tapað gríðarleg­um fjár­mun­um á falli Kaupþings.

SFO hef­ur sagt að rann­sókn­in á Kaupþingi, sem hófst form­lega í lok árs­ins 2009, bein­ist að þeim ákvörðunum, sem leiddu til þess að mikl­ir fjár­mun­ir fóru út úr bank­an­um dag­ana og vik­urn­ar fyr­ir fall hans. Fin­ancial Times hef­ur eft­ir lög­mönn­um, að hand­tök­urn­ar í vik­unni séu hluti af rann­sókn­ar­ferli sem gæti tekið nokk­ur ár.

Guar­di­an hef­ur eft­ir heim­ild­ar­manni, sem teng­ist ein­um hinna hand­teknu, að nokkr­ir þeirra hafi hunsað ráðlegg­ing­ar lög­manna sinna og svarað spurn­ing­um, sem SFO lagði fyr­ir þá.

Sum­ir þeirra hafi fengið á til­finn­ing­una, að rann­sak­end­urn­ir hefðu ekki getað fram­vísað tölvu­póst­um eða öðrum gögn­um, sem tengd­ust þeim.

Frétt Guar­di­an 

Frétt Fin­ancial Times

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert