Á fjórða hundrað foreldrar barna í Grafarvogi mættu á fund með borgarstjóra Reykjavíkur í Rimaskóla í morgun, þar sem fyrirhuguð sameining leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í hverfinu var kynnt.
Nokkur hiti var í fundarmönnum og lýstu foreldrar yfir andstöðu sinni við þær tillögur sem voru kynntar.
„Við höfnuðum þeim sameiningartillögum, sem fram komu frá stjórnvöldum í borginni,“ sagði Þorvaldur Þorláksson, formaður foreldrafélags Korpuskóla í samtali við mbl.is.
„Við teljum að það hafi ekki verið sýnt fram á fjárhagslegan eða faglegan ávinning af þessum tillögum og teljum að Reykjavíkurborg eigi að forgangsraða fjármunum sínum í þágu lögbundinna verkefna en ekki til allskonar gæluverkefna, sem töluvert mikið er um þessa dagana,“ sagði Þorvaldur. „Við viljum standa vörð um börnin okkar og verja menntun þeirra.“
Í þessu sambandi nefnir Þorvaldur 700 milljóna króna framlag borgarinnar til Leikfélags Reykjavíkur og tæplega 300 milljóna króna framlag til Listasafns Reykjavíkur. „Við teljum einfaldlega að það eigi að skera niður í öðrum liðum borgarinnar en í skólastarfinu.“
Að sögn Þorvaldar er meðal annars lagt til að börn í Korpuskóla fari í Víkurskóla eftir 7. bekk, en það fyrirkomulag hefur verið tímabundið við lýði í skólunum og átti að leggja það af í ár. Einnig er lagt til að einn skólastjóri starfi í báðum skólunum.
„Það teljum við foreldrarnir ekki ásættanlegt. Við teljum að sparnaðurinn af því sé óverulegur og það er okkar skoðun að það þurfi að vera einn skipstjóri á hverju skipi.“
Nokkur hiti mun hafa verið í fundarmönnum og tók formaður íbúasamtaka Grafarvogs tók við fundarstjórn.
„Það lá ekki fyrir í fundarboðinu hvort það yrði nokkur fundastjóri á þessum fundi. Foreldrar óskuðu eftir því það yrði lögð fram dagskrá og settur fundastjóri, en það eina sem við vissum um þennan fund var að þar myndu Jón Gnarr og Oddný Sturludóttir vera með framsögu,“ sagði Þorvaldur.
Á fundinum var lesin upp ályktun, þar sem tillögum borgarinnar var mótmælt og öllum breytingum, sem brjóti í bága við foreldra- og skólasamfélagið hafnað. Allflestir fundarmenn samþykktu tillöguna.
Þorvaldur segist bjartsýnn á lyktir mála.„Við bíðum nú svara frá kjörnum fulltrúum borgarinnar.“
Þetta er fyrsti fundurinn í fundarherferð sem farin verður í þá skóla sem til stendur að sameina. Jón Gnarr og Oddný Sturludóttir formaður menntaráðs borgarinnar. Klukkan tvö í dag verður fundur með íbúum í Breiðholti.