Fimm sparisjóðir fengu milljarð að láni án trygginga

Byggðastofnun lánaði fimm sparisjóðum tæpan milljarð króna á árunum 2005 og 2006 án nokkurra trygginga. Lánin hafa verið afskrifuð en sjóðirnir nýttu þau meðal annars til að bæta eiginfjárstöðu sína, þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Fram kemur að lánin hafi verið rökstudd með því að sparisjóðirnir færu ekki á hausinn frekar en aðrar fjármálastofnanir.

Fréttastofan RÚV segist hafa undir höndum skýrslu Ríkisendurskoðunar um mat á efnahagsreikningi og eignasafni Byggðastofnunar, sem unnin hafi verið að beiðni stofnunarinnar í lok árs 2009. Í skýrslunni sé sérstaklega fjallað um lán Byggðastofnunar til sparisjóða á árunum 2005 til 2006, en stofnunin hafi þá átt drjúga lausafjársjóði.

Segir að stofnunin hafi lánað fimm sparisjóðum  950 milljónir króna til að koma peningunum í vinnu, eins og það sé orðað í skýrslunni.

Umræddir sjóðir séu Sparisjóður Bolungarvíkur, Sparisjóður Vestfirðinga, Sparisjóður Norðlendinga, Sparisjóður Þórshafnar og Sparisjóður Norðfjarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert