216 með réttarstöðu grunaðra

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. mbl.is/Ómar

Samtals hafa 216 manns réttarstöðu sakbornings í málum sem sérstakur saksóknari hefur til meðferðar vegna gruns um refsiverða háttsemi í tengslum við bankahrunið.

Þetta kemur fram í svari Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Sigmundi Erni Rúnarssyni, alþingismanni á Alþingi í dag.

Starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara hefur verið að fjölga að undanförnu og verða um næstu mánaðamót 78 menn þar við störf.

Hjá embættinu hafa samtals verið skráð 112 mál, en þar eru einnig mál sem tengjast aðstoð við önnur embætti. Eiginleg mál eru 98, þar af 13 sem upphaflega voru skráð hjá öðrum embættum og send hafa verið til sérstaks saksóknara. Ákært hefur verið í tveimur málum vegna fjögurra einstaklinga. 28 mál hafa verið felld niður. 80 mál eru nú til meðferðar hjá embættinu.

471 einstaklingur, sakborningar og vitni, sem hafa verið yfirheyrðir hjá embætti sérstaks saksóknara.

Fram kom hjá Ögmundi að heildarfjöldi yfirheyrslna væri um  600, en sumir þeirra sem hafa komið í yfirheyrslu hafa mætt oftar en einu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert