Hlutlaust kynningarefni verði útbúið um Icesave

Reuters

Þingmenn Hreyfingarinnar, auk tveggja þingmanna Framsóknarflokksins, hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að innanríkisráðherra verði falin gerð hlutlauss kynningarefnis vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana sem verður haldin 9. apríl næstkomandi.

Hreyfingin segir í tilkynningu að Icesave-málið hafi verið umdeilt og ýmsar skoðanir á lofti um heppilegasta niðurstöðu þess.

„Málið er flókið og erfitt er fyrir almenna borgara að átta sig á hvað felst í raun í synjun eða samþykki laganna sem Alþingi samþykkti 16. febrúar 2011. Mikill áróður hefur verið rekinn af ýmsum hagsmunaaðilum, stjórnsýslunni, stjórnmálaflokkum og einstaklingum og hlutleysi víkur oft fyrir eldmóði þeirra sem áróðurinn reka. Einn stjórnmálaflokkur býður meira að segja upp á námskeið til að undirbúa félagana fyrir rökræður um málið. Þá hafa borist fréttir af því að áhugi sé á því að kynningarefni verði tekið saman í fjármálaráðuneytinu en auglýsingastofa sjái um framsetninguna.

Fjármálaráðuneytið hefur séð um samningagerð og getur því ekki undir neinum kringumstæðum talist óháður aðili. Nauðsynlegt er að sjá til þess að jafnræði ríki á milli ólíkra sjónarmiða og tryggt sé að sjónarmið bæði með staðfestingu laganna og á móti staðfestingunni hljóti sanngjarna umfjöllun,“ segir í tilkynningu frá Hreyfingunni.   

 
Þingsályktunartillagan á vef Alþingis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka