Holtavörðuheiði enn ófær

Víða er þungfært. Myndin er úr myndasafni.
Víða er þungfært. Myndin er úr myndasafni. Mbl.is/Árni Sæberg

Víða er hvasst eða jafnvel óveður á landinu í dag, einkum um vestanvert landið. Vegagerðin varar við hálkublettum á Hellisheiði og í Þrengslum líkt og á flestum vegum á Suðurlandi. Hálka er einnig á Lyngdalsheiði og
Mosfellsheiði.

Á Vesturlandi er óveður víða á Snæfellsnesi og eins á Bröttubrekku. Holtavörðuheiði er ófær og þar er enn vonskuveður. Nokkurn tíma mun taka að losa bíla sem þar eru fastir og moka heiðina.

Á Vestfjörðum er flughált frá Þorskafirði vestur í Flókakalund en Klettsháls raunar þungfær. Óveður er á Mikladal og Hálfdáni. Óveður og flughált er á Gemlufallsheiði og í Önundarfirði. Flughált er einnig í Súgandafirði sem og á kafla í Djúpinu. Á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum er þungfært og beðið með mokstur vegna veðurs. Óveður er á Ennishálsi.

Vegir eru víðast auðir í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Óveður er á Siglufjarðarvegi. Snjóþekja er á Öxnadalsheiði en víða nokkur hálka austan Eyjafjarðar. Óveður er á Mývatnsheiði og hált.

Þungfært er á Vopnafjarðarheiði og Háreksstaðaleið en annars er víðast  góð færð á Austurlandi, hálkublettir á nokkrum vegum en vegir eru  greiðfærir frá Reyðarfirði og með ströndin vestur á Skeiðarársand. Á Suðausturlandi eru hálkublettir frá Skeiðarársandi að Kirkjubæjarklaustri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert