Iceland Express seinkar brottförum

Iceland Express.
Iceland Express.

Iceland Express ætlar að seinka brottfarartímum sínum að morgnanna að beiðni Keflavíkurflugvallar. Algengasti brottfarartíminn eftir breytingu verður um og upp úr klukkan átta að morgni í stað sjö. Annað flug færist einnig til með svipuðum hætti.

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að búist sé við aukningu umferðar um flugvöllinn í sumar og með þessari ráðstöfun sé komið til móts við það að beiðni stjórnenda flugvallarins.

Verður þeim farþegum sem þegar hafa keypt sér far með félaginu sendur tölvupóstur þar sem þeim verður tilkynnt um breyttan brottfarartíma.

Í tilkynningu frá Isavia, sem meðal annars annast rekstur flugvallarins og Leifsstöðvar kemur fram, að í stað þess að afgreiða 14-15 farþegaflug samtímis á háannatíma að morgni og aftur síðdegis eins og gert var síðastliðið sumar, verður fjöldinn í ár að jafnaði 18-20 vélar. 

Einungis 14 flugvélar komist samtímis að flugstöðinni og því sé ljóst að ekkert má út af bregða til þess að seinkun á einni vél eða óvæntar tafir í afgreiðslu geti orðið keðjuverkandi og um leið skapað öngþveiti og margskonar óþægindi fyrir farþega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert