Saksóknari í máli Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, segir að það sé hafið yfir allan vafa að Baldur hafi brotið af sér af ásetningi og gegn betri vitund. Hann hafi búið yfir innherjaupplýsingum. Hann krefst þess að Baldur verði dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi.
Björn Þorvaldsson saksóknari lauk málflutningi sínum nú á tólfta tímanum. Hann fór ítarlega yfir ákæruna á hendur Baldri, sem er í sex liðum. Hann er sakaður um innherjasvik með því að hafa 17. og 18. september 2008 selt öll hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf. fyrir um 192 milljónir kr.
Hann er sakaður um að hafa búið yfir innherjaupplýsingum um bankann sem hann hafi orðið áskynja um í starfi sínum sem ráðuneytisstjóri.
Baldur neitar að hafa búið yfir innherjaupplýsingum.
Í máli Björns kom fram að Baldur hefði fengið innherjaupplýsingar á sex fundum samráðshóps forsætis-, fjármála-, viðskiptaráðuneytisins, fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað. Þeir voru haldnir frá 22. júlí 2008 til 16. september 2008. Einnig á fundi með bankastjórum Landsbankans 13. ágúst 2008 og fundi með fjármálaráðherra Bretlands 2. september 2008.
Málflutningur í máli Baldurs hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun þegar vitnaleiðslum lauk, en Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, bar vitni fyrir dómi í morgun símleiðis.
Saksóknari telur það hafið allan vafa að um ásetningsbrot hafi verið að ræða. Baldur hafi nýtt sér innherjaupplýsingar í því skyni að auðgast. Hann hafi auk þess misnotað stöðu sína sem opinber starfsmaður.
Björn telur að aðeins fangelsisdómur komi til greina í málinu, eigi skemur en tvö ár. Enda brotið alvarlegt og það geti varðað allt að sex ára fangelsi.
Þá fer saksóknari fram á að dómurinn geri hagnaðinn af sölu bréfanna, 192 milljónir króna, upptækan.
Karl Axelsson, verjandi Baldurs, hóf mál sitt að loknum málflutningi Björns.
Aðalmeðferðinni mun ljúka í dag og verður málið þá dómtekið.