Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist ekki ætla að standa að mótun nýrrar gjaldeyris- eða peningamálastefnu nema að gert sé ráð fyrir þeim valkosti að hér verði áfram notast við krónu.
Steingrímur sagði þetta í svari við fyrirspurn frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Framsóknarflokksins.
„Við þurfum traust og vel fjármagnað fjármálakerfi sem hefur bæði eiginfjárstyrk og lausafjárstyrk til að takast á við þær breytingar sem verða skrefum samfara afnámi gjaldeyrishafta. Við þurfum gjaldeyrisforða og áætlun um skulda- og greiðslustýringu landsins og afborganir af erlendum lánum sem rýma við þau skref í afnámi gjaldeyrishafta sem tekin verða. Við þurfum væntanlega að vinna í því að ná niður snjóhengjunni sem hangir yfir; hinar miklu krónueignir erlendra aðila hér inni í hagkerfinu, í markvissum skrefum. Þannig hlýtur áætlun um afnám gjaldeyrishafta í skrefum að líta út.
Það er mín skoðun að íslenska krónan verði okkar gjaldmiðill, a.m.k. um mörg ár í viðbót og allar aðrar hugmyndir séu óraunhæfar. Ég mun ekki standa að mótun neinnar gjaldeyris- eða peningamálastefnu sem ekki gerir ráð fyrir þeim jafngilda valkosti öðrum, að hér verði íslenska krónan okkar gjaldmiðill áfram. Ég trúi því að það sé vel hægt, en það kallar á mikinn aga, vönduð vinnubrögð og við munum ekki hafa efni á því, Íslendingar, að endurtaka þau hroðalegu mistök sem hér voru gerð á umliðnum árum ef við ætlum byggja okkar eigið hagkerfi til framtíðar á okkar eigin gjaldmiðli. Það kallar á aga og vönduð vinnubrögð, en það er að sjálfsögðu hægt. Krónan hefur á margan hátt nýst okkur vel í glímunni við erfiðleikana. Án hennar og aðlögunar sem að hluta til hefur orðið í gegnum gengið er enginn minnst vafi á því í mínum huga, að atvinnuleysið væri meira og verðmætasköpunin minni í hagkerfinu,“ sagði Steingrímur.
Sigmundur Davíð gagnrýndi orð Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, sem hefði í viðtölum við erlenda fjölmiðla lýst krónunni sem ónýtum gjaldmiðli sem ekki yrði hægt að treysta á. Sigmundur Davíð sagði sérkennilegt að ráðherrann kynnti íslenskt efnahagslíf erlendis með þessum hætti á sama tíma og verið væri að kalla eftir erlendri fjárfestingu inn í landið.