Rafmagn fór af Dalabyggð og Stykkishólmi í morgun. Segir í tilkynningu frá RARIK að þetta hafi gerst þegar álag á raforkukerfið jókst.
Fram kemur á vef Skessuhorns að svo virðist sem varatenging í nótt hafi ekki dugað þegar vinnsla hófst í mjólkursamlaginu í Búðardal morgun.
Vinnuflokkur RARIK frá Búðardal og Stykkishólmi vinnur nú við að koma á varatengingu við Búðardal um Skógarströnd. Rafmagnsnotendur eru beðnir að fara sparlega með rafmagn þar sem flutningsgeta um varatengingu er takmörkuð.
Áfram er unnið við að koma rafmagni til notenda sem eru án rafmagns.
Rafmagn fór af Dalabyggð og Vestfjörðum í gærkvöldi vegna línubilunar en bilunin var lagfærð til bráðabirgða í nótt.