Bregðast ókvæða við færeyskum makrílkvóta

Skoskir bátar í höfn.
Skoskir bátar í höfn.

Forsvarsmenn skoskra sjómanna hafa brugðist ókvæða við ákvörðun færeysku landsstjórnarinnar í gær um að gefa út 150 þúsund tonna makrílkvóta fyrir færeyska sjómenn. 

Skoska sjómannasambandið segir, að ákvörðun Færeyinga sé algerlega óviðunandi og muni hafa alvarleg áhrif á afkomu skoskra sjómanna.

Bertie Armstrong, framkvæmdastjóri skoska sambandsins segir við blaðið The Press and Journal, að harma beri að samningaviðræður í Ósló í síðustu viku hafi engu skilað og ólíklegt sé að frekari viðræður verði um kvóta þessa árs.

„Framganga fyrst Íslendinga og nú Færeyinga í þessu máli er rót mjög alvarlegs vandamáls sem ógnar makrílstofninum og einnig mikilvægum tvíhliða samningum. Þetta mun hafa mjög alvarleg áhrif á skoska úthafs- og botnfiskveiðiflotann." 

Armstrong segir, að tímabært sé að menn geri sér grein fyrir því að Færeyingar og Íslendingar séu ekki þær ábyrgu fiskveiðiþjóðir, sem þeir segjast vera heldur haldi þeir fiskistofnum í Norður-Atlantshafi í gíslingu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert