Dæmdur fyrir hótanir

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 43 ára gamlan karlmann í 2 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hótanir. Maðurinn starfaði sem öryggisvörður hjá Securitas og hringdi ítrekað að næturþeli í síma í tveimur húsum sem hann var að vakta.

Þetta gerðist í ágúst og september árið 2009. Maðurinn komst yfir síma konu nokkurrar og hringdi úr honum í heimasíma í tveimur húsum sem hann átti að vakta. Hann hringdi einnig í heimasíma annars mannsins og sagði: Ertu úti. “[...]. þetta er málningarþjónustan. Við komum og málum hús.“ Þá sendi hann SMS í síma eiginkonu mannsins og voru þau í svipuðum dúr.

Í dómnum kemur fram, að símhringarnar og SMS skilaboðin hafi verið til þess fallin að vekja hjá fólkinu ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína og sinna og einnig hafi þau raskað næturró fólksins.

Maðurinn játaði brotin. Fram kom í Kastljósi Sjónvarpsins veturinn 2009, að maðurinn, sem er Pólverji, væri eftirlýstur af lögreglu í heimalandi sínu fyrir stórfelld og ítrekuð fjársvik. Þáverandi forstöðumaður Securitas sagði, að maðurinn hefði verið með hreint sakarvottorð þegar hann var ráðinn í vinnu og ekkert benti til þess að hann hefði komist í kast við lögin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert