„Mér finnst að þeir megi nú stundum, þessir vísu menn, taka aðeins mark á því sem staðkunnugir segja þeim," segir Gunnar Sæmundsson bóndi á Hrútatungu í botni Hrútafjarðar. Við bæinn stendur rafmagnsstaurastæða sem féll í gærkvöldi og olli rafmagnsleysi á Vestfjörðum. Gunnar segist hafa varað við því í 3 ár að stæðan gæti fallið.
Úr spennustöðinni í landi Hrútatungu fer Vesturlínan, s.k. Glerárskógarlína, vestur á firði. Hrútafjarðaráin hefur jafnt og þétt grafið sig nær bakkanum þar sem rafmagnsstaurarnir standa og í gær gróf undan svo staurarnir féllu. „Mér finnst hart að vera búinn að benda mönnum á þetta í lengri tíma án þess að nokkuð séð að gert fyrr en það verður rafmagnslaust. Þetta er aðallínan fyrir Vestfirðina úr landskerfinu og þetta hefur blasað við mér og fleirum sem hér eru kunnugir," segir Gunnar.
Hann segist fyrst hafa varað Rarik við því fyrir 3 árum að hætta væri á því að staurarnir féllu vegna aðgangs árinnar. Síðar hafi maður frá Landgræðslunni tekið myndir af landbrotinu og sent Landsneti og nú síðast hafi Gunnar einnig hringt í Orkubú Vestfjarða og bent á að áin væri komin ískyggilega nálægt rafmagnsstaurunum. „Þrátt fyrir þetta hefur enginn aðhafst neitt fyrr en í vetur, þá fóru þeir fyrst að huga að þessu en það var of seint og nú er þetta búið að gerast. Mér finnst þetta bara trassasakapur."
Spennustöðin í Hrútatungu er í eigu Landsnets og er línan þaðan eina tenging Vestfjarða við landsnetið. Viðgerðir eru nú hafnar á rafmagnsstaurunum en á meðan henni stendur er keyrt á dísilrafstöðum á Vestfjörðum sem anna álaginu að mestu og því verða íbúar fyrir lágmarkstruflunum.
Að sögn Garðars Lárussonar, viðskiptastjóra hjá Landsneti, eru viðgerðarmenn frá Landsneti komnir að spennustöðinni í Hrútatungu. Aðstæður leyfa hinsvegar ekki viðgerð eins og er vegna vatnselgs og bíða viðgerðarmenn þess að sjatni í ánni. Garðari er ekki kunnugt um að varað hafi verið við aðstæðum í Hrútatungu. „Mér finnst með ólíkindum ef svo er, því okkar rekstrarmenn fylgjast grannt með línunum og einmitt með svona atriðum"