Orkan og Atlantsolía hafa lækkað verð á bensínlítranum um 3 krónur og verð á dísillítranum um tvær krónu. Bensín kostar nú í sjálfsafgreiðslu 227,6 kr. hjá Orkunni en er 10 aurum dýrara hjá Atlantsolíu.
Lítri af dísilolíu kostar 233,5 kr. hjá Orkunni og 233,6 kr. hjá Atlantsolíu.
Bensínverð hefur ekki lækkað hjá N1, Olís eða Shell. Þar kostar bensínlítrinn um 231 krónu og dísillítrinn um 236 kr.
Í tilkynningu frá Orkunni kemur fram að verð á olíu hafi lækkað nokkuð í morgun. Ástæða lækkunarinnar að þessu sinni sé rakin til þess að hlutabréfavísitölur hafi fallið víða um heim sem af sé degi, en mest hafi lækkunin verið í Japan.
Verð á olíu hafi í raun verið að elta þá þróun. Enn sé barist í Líbíu og mjög erfitt sé að spá fyrir um þróunina í Sádi-Arabíu og nágrenni.