Unglingar gera skýran mun á hassi og marijúana og telja hið síðarnefnda svo til skaðlaust, þannig hafa ranghugmyndir þeirra um kannabisefni aukist á sama tíma og forvarnarstarf hefur stórlega dregist saman.
Þetta er mat Magnúsar Stefánssonar, fræðslufulltrúa og forsvarsmanns Maríta á Íslandi. Maríta-samtökin standa fyrir fræðslu í grunnskólum um skaðsemi fíkniefna en Magnús segir unglinga fá rangar upplýsingar úr ýmsum áttum.
„Þau heyra að marijúana sé notað í lækningaskyni og sjá marijúana reykt í þáttum á borð við How I Met Your Mother.“ Umræða um lögleiðingu kannabisefna hjálpi heldur ekki til og fíkniefnasalar treysti á þessa jákvæðu umfjöllun um efnin. Þeir kynni marijúana sem lífrænt ræktaða úrvalsvöru.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að kannabisfíkn var helsta vímuefnafíkn 48% ungmenna undir tvítugu, sem innrituð voru á Vog árið 2009.