Síðari umræða fer nú fram á Alþingi um þingsályktunartillögu um skipan stjórnlagaráðs. Tólf þingmenn eru á mælendaskrá en allt útlit er fyrir að meirihluti sé fyrir samþykkt tillögunnar. Var hún afgreidd úr allsherjarnefnd í gær en fulltrúar minnihlutans hafa lagt fram breytingartillögur.
Á sjöunda tímanum í kvöld samþykkti Alþingi breytingar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Um tíma þurfti að breyta dagskrá þingsins, og gera jafnframt hlé á þingstörfum, til að leita afbrigða við afgreiðslu málsins þar sem of skammur tími var liðinn á milli annarar og þriðju umræðu.
Síðustu forvöð voru að samþykkja lagabreytingarnar þar sem utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana 9. apríl nk. á að hefjast á morgun.
Helstu breytingar laganna snúast um aukið hlutverk landskjörstjórnar við framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Samkvæmt lögunum er m.a. gert ráð fyrir að talning atkvæða fari fram á einum stað og hefur landskjörstjórn það hlutverk með höndum. Hlutverk yfirkjörstjórna eins og það er við alþingiskosningar færist því að mestu leyti yfir til landskjörstjórnar samkvæmt lögunum.