Taka ekki afstöðu

Frá Seltjarnarnesi
Frá Seltjarnarnesi www.mats.is

Bæjarstjórn Seltjarnarness segist harma að mál sem varðar meint einelti af hálfu bæjarstjóra Seltjarnarness, Ásgerðar Halldórsdóttur, gagnvart fyrrverandi starfsmanni bæjarins sé rekið í fjölmiðlum án þess að öll gögn málsins liggi fyrir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bæjarstjórninni, sem samin var eftir fund sem bæjarstjórnin hélt fyrr í dag þar sem farið var yfir ásakanir starfsmannsins, Ólafs Melsted, sem gegndi starfi framkvæmdastjóra Tækni- og umhverfissviðs. Ólafur hefur nú verið frá vinnu í meira en ár.

Skrifuð var skýrsla um samskipti þeirra Ólafs og Ásgerðar. Bæjarfulltrúar geta ekki fengið hana afhenta, nema gegn greiðslu 1,6 milljóna, sem að sögn lögfræðings Ólafs samsvarar útlögðum kostnaði við gerð hennar.

Í tilkynningunni segir að upphaf umfjöllunarinnar megi rekja til þess að lögmaður viðkomandi starfsmanns sendi bréf til bæjarfulltrúa  8. mars sl. þar sem kynnt var niðurstaða matsgerðar sem viðkomandi starfsmaður hafði aflað sér.

„Í framhaldi af því að bréfið barst bæjarstjórn var óskað eftir að matsgerðin yrði afhent bæjarstjórn til þess að unnt yrði að taka afstöðu til krafnanna út frá þeim forsendum sem niðurstaða matsmanna byggði á. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir, hefur matsgerðin ekki fengist afhent, en þess í stað hefur bæjarfulltrúum verið boðið upp á að fá aðgang að matsgerðinni á skrifstofu lögmanns viðkomandi starfsmanns undir sérstöku eftirliti fulltrúa á viðkomandi lögmannsstofu. Á slík vinnubrögð geta fulltrúar bæjarstjórnar ekki fallist enda venja að gagnaðili fái afhentar matsgerðir sem byggt er á,“ segir í tilkynningunni.

„Á meðan matsgerðin fæst ekki afhent óskilyrt telur bæjarstjórn sér ekki fært að taka málefnalega og sanngjarna afstöðu til krafna starfsmannsins. Þegar bæjarstjórn fær afhenta viðkomandi matsgerð mun hún yfirfara hana gaumgæfilega og taka afstöðu til hennar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert