Teknir með fljótandi amfetamín

Vinna mátti 8 kíló af amfetamíni úr vökvanum sem tollverðir …
Vinna mátti 8 kíló af amfetamíni úr vökvanum sem tollverðir stöðvuðu í Leifsstöð nýverið. Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Tollverðir á Keflavíkurflugvelli handtóku nýlega tvo menn með fljótandi amfetamínvökva í vínflöskum sem vinna má úr um 8 kíló af fíkniefninu í neysluformi. Átta kíló af amfetamíni eru metin á um 40 milljónir króna, samkvæmt frétt Stöðvar 2 í kvöld.

Um tvo Pólverja var að ræða sem komu til landsins með flugi. Í fórum þeirra fundust tvær vínflöskur sem reyndust innihalda 1,5 lítra af amfetamíni í fljótandi formi. Samkvæmt frétt Stöðvar 2 þykir þetta verulegt magn þar sem tollverðir náðu um tveimur lítrum af þessu efni allt síðasta ár.

Rannsókn málsins er sögð á lokastigi og miðað við sambærileg mál eiga mennirnir yfir höfði sér allt að 2-3 ára fangelsi. Mennirnir voru úrskurðaðir í þriggja vikna gæsluvarðhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert