Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn lögðu til á borgarstjórnarfundi í dag, að tillögur meirihlutans í borgarstjórn um miklar breytingar á skólakerfinu verði dregnar til baka og hafið verði raunverulegt samráð við borgarbúa og starfsfólk um hvernig best megi halda á þessu verkefni. Tillaga minnihlutans var síðan felld af fulltrúum meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar.
Skýrsla starfshóps, sem vann tillögur um sameiningu skóla í borginni var rædd á borgarstjórnarfundi í dag að ósk minnihlutans.
Tillaga Sjálfstæðisflokks og VG er eftirfarandi:
„Borgarstjórn samþykkir að draga til baka þær tillögur sem fram koma í skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila og hefja raunverulegt samráðsferli við borgarbúa og fagfólk um aukið samstarf starfseininga og það hvernig koma megi í veg fyrir að byggja þurfi nýtt skólahúsnæði á næstu árum. Sú hagræðing sem skýrslan gerir ráð fyrir, 14,7 milljónir króna, verði teknar af liðnum ófyrirséð."