Þingmenn Hreyfingarinnar hafa lagt fram breytingartillögu við fram komna þingsályktunartillögu um skipun stjórnlagaráðs. Breytingartillagan kveður á um að áður en umfjöllun Alþingis um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefst skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs.
„Breytingartillagan tryggir aðkomu þjóðarinnar að endanlegu frumvarpi stjórnlagaráðs og að vilji þjóðarinnar sé skýr hvað varðar nýja stjórnarskrá áður en til kasta Alþingis kemur. Mikilvægt er að þjóðaratkvæðagreiðslan verði þannig útfærð að unnt verði að greiða atkvæði um einstakar greinar frumvarpsins eða samhangandi greinar þess eftir því sem við á sem og fleiri en eina útfærslu af einstökum greinum sem mikið ósamkomulag kann að vera um í stjórnlagaráðinu," segir í tilkynningu frá þingflokki Hreyfingarinnar.
Starfstími stjórnlaganefndar verði framlengdur
Þá lagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fram breytingartillögu við sama frumvarp, en samkvæmt dagskrá Alþingis fer síðari umræða fram um það í kvöld. Vill Vigdís að starfstími stjórnlaganefndar verði framlengdur og nefndin fái það verkefni að gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins.
Stjórnlaganefndin skuli, að mati Vigdísar, meta sjálfstætt og án afskipta löggjafans þau atriði sem hún telji að eigi erindi í endurskoðaðri stjórnarskrá. Nefndin skuli skila tillögum sínum í frumvarpsdrögum til Alþingis eigi síðar en 1. júní nk.
„Þeir sem hafa fylgst með fjölmiðlum undanfarnar vikur vita það að leiðin sem lögð er til með kosningu stjórnlagaráðs mætir mikilli andstöðu. Sérfræðingar í stjórnskipunarrétti tala um stjórnarskrársniðgöngu. Ég er talsmaður þess að auka virðingu Alþingis í samfélaginu, það gerum við helst með því að setja vönduð og ígrunduð lög," segir Vigdís.