Bjartsýni ríkir um Landeyjahöfn

Fjölmennt var á fundinum í Eyjum í kvöld.
Fjölmennt var á fundinum í Eyjum í kvöld. mbl.is/Fréttir í Eyjum

Rekstraraðilar í samgöngumálum milli lands og Eyja telja ástæðu til bjartsýni. Þetta kom fram á borgarafundi um samgöngumál sem haldinn var í Höllinni í Vestmannaeyjum í kvöld. Hátt á fjórða hundrað manns mættu á fundinn en vaxandi óánægja hefur verið með þjónustu Herjólfs á meðan brösuglega hefur gengið að halda Landeyjahöfn opinni.

Erindi héldu Sigurður Áss Grétarsson, frá Siglingastofnun, Guðmundur Nikulásson, frá Eimskipum, Óskar Stefánsson, frá Bílar og fólk/Sterna sem sér um rútuferðir til og frá Landeyjarhöfn, og Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Flugfélagsins Ernis.  

Fram kom í máli Sigurðar Áss að framburður sands hefði minnkað til mikilla muna og væri nú einungis 1% af því sem hann hefði verið í haust. Eldgosið hefði verið ófyrirsjáanlegur áhrifavaldur og einstaklega slæm veðurskilyrði hefðu valdið enn meiri vandkvæðum við að halda höfninni opinni. Að auki hefðu komið upp bilanir í sanddæluskipinu en þegar þessir þættir kæmist í lag myndi einungis taka 4-5 daga að opna Landeyjahöfn.

Þá benti Guðmundur Nikulásson á að viðbrögð Eimskipa miði við að siglt væri milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar og viðurkenndi að þörf væri á að endurskoða verkferla þegar Herjólfur neyddist til að sigla í Þorlákshöfn.

Krafa um upplýsingar

Að sögn Elliða Vignissonar, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, voru helstu niðurstöður fundarins þær að Landeyjahöfn er hluti af framtíðarsamgöngum Vestmannaeyinga, það hafi ekkert breyst. „Erfiðleikarnir og vandræðin í byrjun urðu meiri og umfangsmeiri en hægt var að sjá fyrir, þar átti eldgosið auðvitað stóran þátt, en við erum að vinna okkur út úr þessum byrjunarörðugleikum. Krafa Vestmannaeyinga er ekki sú að það verði hægt að stjórna náttúrunni en það er ófrávíkjanleg krafa að við fáum á öllum tímum upplýsingar um gang mála, það hefur skort verulega á það en þeir sem hér töluðu í kvöld lofuðu að gera bót þar á og að við fengjum að vita hver staðan væri á hverjum tíma. Við viljum helst fá góðar fréttir en við þolum alveg slæmar fréttir," sagði Elliði.

Hátt á fjórða hundrað manns mættu á fundinn.
Hátt á fjórða hundrað manns mættu á fundinn. mbl.is/Fréttir í Eyjum
Óánægja er meðal Eyjamanna með þjónustu Herjólfs.
Óánægja er meðal Eyjamanna með þjónustu Herjólfs. mbl.is/Fréttir í Eyjum
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert