Bónus oftast með lægsta verðið

Bónus var oftast með lægsta verðið þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í 4 lágvöruverðverslunum og 4 stórmörkuðum á höfuðborgarsvæðinu mánudaginn 14. mars.

Af þeim 78 vörutegundum sem skoðaðar voru var Samkaup-Úrval með hæsta verðið í 38 tilvikum, Nóatún í 26 tilvikum og Hagkaup í 18 tilvikum. Hjá Bónus var verðið lægst á 31 vörutegund af þeim 78 sem skoðaðar voru. Kostur var með lægsta verðið í 20 tilvikum.

Mestur verðmunur í könnuninni var  á ódýrustu tegund af töflum fyrir uppþvottavélar sem voru dýrastar á 31 kr./st. í Kosti og ódýrastar á 3 kr./st. í Krónunni verðmunurinn er 28 kr./st. eða 933%.

Mikill verðmunur var einnig á rúðuúða sem var dýrastur á 889 kr./l. í Nettó en ódýrastur á 279 kr./l. í Bónus, verðmunurinn eru 610 kr./l. eða 219%. Ferskar kjúklingabringur voru dýrastar á 2.798 kr. í Hagkaupum og ódýrastar á 1.379 kr. í Kosti sem er 103% verðmunur. Ódýrasta heilhveitibrauðið var dýrast á 400 kr./kg. í Hagkaupum og ódýrast á 198 kr./kg. í Bónus sem er 102% verðmunur.   

Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru til í Fjarðarkaupum eða 76 af 78, í Samkaup Úrval voru til 73 af 78. Fæstar vörurnar í könnuninni voru fáanlegar í Kosti 54 af 78 og Bónus átti 67 vörur af 78.

Breyttar verðmerkingar á kjötvörum

Eins og neytendur hafa tekið eftir hafa verið gerðar breytingar á verðmerkingu kjötvara í matvöruverslunum. Verðmerkingar á matvörum eins og t.d. áleggi, eru ekki lengur á umbúðunum, heldur eru verðmerkingar með sama hætti og annars staðar í versluninni með hillumiða. Þessi breyting á verðmerkingu matvörunnar ætti að skila virkari verðsamkeppni. 

Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Bónus Granda, Krónunni Granda, Nettó Mjódd, Kosti Dalvegi, Fjarðarkaupum Hafnarfirði, Nóatúni Austurveri, Samkaupum Úrval Miðvangi, Hagkaupum Kringlunni.
Um beinan verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert