Blikaberg, fyrirtæki sem er í eigu sömu aðila og eiga Lotnu, var annað þeirra fyrirtækja sem gerði tilboð í allar eignir þrotabús Eyrarodda á Flateyri. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins.
Frestur til að skila inn tilboðum í eignir Byggðastofnunar á Flateyri rann út fyrir helgi. Útvarpið segir að þrjú tilboð hafi borist í hluta eignanna en tvö í þær allar og annað þeirra sé frá fyrirtækinu Blikaberg. Stjórnarformaður fyrirtækisins er Gylfi Þór Sigurðsson, sonur Sigurðar Aðalsteinssonar, fyrrverandi eiganda Lotnu. Sigurður er varamaður í stjórn Blikabergs og framkvæmdastjóri. Gylfi Þór er einnig stjórnarformaður Lotnu.
Lotna hafði áður keypt þrotabú Eyrarodda en stjórn Byggðastofnunar neitaði að staðfesta kaupsamning vegna viðskiptasögu forsvarsmanna Lotnu. Forsvarsmenn Lotnu undirbúa málssókn á hendur Byggðastofnun.